17.10.07

... langt síðan síðast...

... já hef ætlað mér að blogga fyrr en tja var á fullu í prófalestri fyrir SÍÐASTA prófið mitt í læknisfræði fyrir embættisprófin í vor!! Sumir grínast með að nú sé maður orðinn fræðilegur læknir, aðeins vantar upp á verknám og svo auðvitað embættisprófin. Ég á hins vegar eftir að fínpússa verkefnið mitt og verja það... eins og nokkrir aðrir á minni önn. Stend í því þessa dagana enda í tveggja vikna langþráðu haustfríi áður en ég fer í mánaðarverknám á deild sem ég er rosalega spennt fyrir, endokrinologi- deildinni (hormóna-og efnaskipta):D Síðan tekur við pendl til Kolding í desember þar sem ég verð á fæðinga- og kvennsjúkdómadeildinni á Kolding Sygehus. Spændende enda allt fyrsta val sem ég og vinkona mín Vibeke fengum :D



Við Jói erum þó að fara í smá helgarfríi... tökum lestina í fyrramálið til "heimaborgar" Jóa, Flensburg þar sem við höfum leigt Audi sportback fram á sunnudag. Þaðan förum við á B&B Truelove í Amsterdam, skondið nafn en eitt á fáu gistiheimilinum sem ég fann á netinu þar sem ekki stóð stórum stöfum SMOKING ALLOWED eða ABOVE OUR COFFEESHOP... Verðum í Amsterdam fram á föstudagskvöld eða laugardagsmorgun og förum þaðan að heimsækja þýska vinkonu mína, Jönnu, sem er að læra barnalækninn í heimabæ sínum Muenster er liggur rétt við landamærin upp að Hollalandi. Við kynntumst þegar ég var ungur og vitlaus skiptinemi í verknámi á 6. önn á kirurgiunni á LSH. Hún var hins vegar á kandídatsárinu, þannig að við gerðum díll, hún reddaði mér með faglega dótið og ég sýndi henni landið og túlkaði fyrir hana orð eins og gallkögun, ósæðargúlp og gauklabólgu!







Annars hefur lífið ekki einungis verið próflestur og verkefnaskil frá því við komum hingað. Stóðum í flutningum, týndum saman búslóð mína úr geymslum vina hérna í Odense daginn eftir að við komum. Jói ók um eins og hershöfðingi á flutningabílnum er við leigðum en að aka hér um er ekki auðvelt út af öllu hjólreiðamönnnunum sem eiga ALLTAF réttinn. Síðan tók við bið yfir daginn eftir restinni, leystum hvort annað af á vöktum þar sem siðurinn hérna er að segja: "já við komum eitthvern tímann eftir 9:00 og fyrir 21:00 á morgun". Þykir greinilega gott að þeir geta tilgreint dagsetningu og vikudag en ekki meir! Fengum flotta sófann okkar sem er btw fínasti svefnsófi ef eitthver vill kíkja hingað í heimsókn á næstunni, 200kg borðstófuborð úr gegnheillri eik, internetið (það tók reyndar fleirri daga enn einn, meira að segja sunnudagsmorgun), PAX skápa frá IKEA og hluta af búslóðinni hans Jóa á bretti... og allt kom sitt hvorn daginn! Annars fengum við nú hjálp frá góðum vinum hérna í Óðinsvé þannig að þetta gekk allt vel þrátt fyrir að IKEA hérna er álíka stórt og stafirnir sem merkja það!




Mamma og pabbi komu svo í heimsókn í rúma viku í lok september. Það var voða ljúft að hafa þau hérna hjá sér. Sandra stóra systir Jóa og pabbi Jóa eru á leiðinni í byrjun nóvember, Vilborg Mjöll stóra systir mín og Hugrún María koma eftir rúma viku, Atli vinur Jóa í kringum landsleikinn og mamma Jóa í desember :D Þau öll misstu þó af innflutnings/afmælispartýinu okkar sem var núna um helgina, svaka stuð... en tja við lofum nú alveg stuði þegar þau koma ;)



P.S. Set inn myndir á næstunni úr innflutningspartýinu, myndir af hreiðrinu okkar Jóa sem og myndir frá mini-Evrópuferðinni.

Efnisorð:

11.8.07

Takk fyrir

Takk kærlega fyrir allar samúðarkveðjunar, blóm og samúðarkort. Gott að sjá hvað margir hugsa til manns :D

Annars er mest lítið að frétta af mér. Vinna flesta daga eða vaktir. Við Jói fórum í rosalega flott og veglegt brúðkaup hjá Valdísi og Gauta þann 28. júlí. Þessa helgina er ég á dagvöktum en fæ þó afleysingu hluta af Kleppsvaktinni til að skjótast í brúðkaupið hjá Andra og Ragnheiði, ameríkuförum. Næstu helgi getum við vonandi farið í smá hálendisferð, löng helgi hjá mér sökum vaktafría og væri gaman að geta nýtt hana saman til að ferðast í kyrrðina og friðsældina.

Annars er það bara 27. ágúst 2007, flug til Danmerkur og flutningar... wow...

Efnisorð: , ,

19.7.07

... sjáumst í draumaheimum...




María Björg Björnsdóttir F. 7. febrúar 1916, d. 10. júlí 2007

Elsku, besta amma bu er búin að fá hvíldina. Við að heyra þessi orð yfirtók friður og ró hjartað en söknuður heltók hugann. Amma bu var búin að eiga góða ævi og ljúf efri ár. Hún bjó í eigin íbúð fram á það síðasta eins og ávalt óskaði sér. Hún átti ljúfar sundir í Þorraseli þar sem hún fékk góðan mat, gott atlæti og vann handavinnu. Ýmsa fallega muni gaf hún mér, muni sem hún hafði málað og saumað að natni. Meðal annars er útsaumaður koddi með litlu lambi á sem mun eiga heiðursess á heimili okkar Jóa. Litla lambið var einn af fjölmörgum fallegum hlutum er hún gaf mér yfir ævina til að veita mér styrk og huggun. Lambið gaf hún mér til að hafa hjá mér úti í Danmörku þar sem ég stunda nám og amma skynjaði að stundum leið mér ekki alltaf sem allra best úti meðan ég var að fóta mig fjarri fjölskyldunni. Örlæti lýsti ömmu bu vel. Hún var sönn amma sem alltaf átti hollan og góðan mat í gogginn sem og mola í nestið við heimför. Helbrigði og hreysti eru orð sem ég sem barn tengdi fljótt við ömmu bu. Ófáar sunderðirnar fór ég með henni þar sem hún synti 500m nær daglega meðan heilsan var sem best, skellti sér í ískalda sturtu og smurði sig hinum ýmsum smyrslum á sólargyllt hörundið. Fegurð, innri sem ytri lýsti henni einnig. Hún var ætíð með fallega liðað ljóst hár og vel tilhöfð. Hún var hjartahlý og huggandi kona er kenndi mér að umgangast ástina með virðingu og á heilsteyptan hátt. Hún hafði að eigin sögn sem ung kona ætlað sér að nema hjúkrunarfræði hér fyrir sunnan en fljótlega hitt hann afa sem hún stofnaði fallegt heimili með. Þó að hún næði ekki að fara í hjúkrunarfræðina þá má segja að hennar eiginleiki til að vera öðrum til staðar hafi gagnast fjölskyldunni best. Þó efast ég ekki um að við amma bu værum skólasystur í dag ef hún hefði upplifað hvernig tímarnir eru breytir. Hún var afar stolt af mér í mínu læknisfræðinámi og spennt yfir læknavísindunum. Talaði hún oft um hana langömmu mina, móður sína sem var ljósmóðir og nánast fæðingarlæknir héraðsins hér áður fyrr. Kjarnakona er fór á milli bæja í verstu vetrarhríðunum, kona sem var henni og mér mikill innblástur.

Síðustu dagana var amma bu þó veik. Eigi að síður var stutt í brosið sem einkenndi hana. Ég heyri einnig glettin hlátur hennar óma fyrir eyrunum og allar sögunar um lífið í sveitinni þegar hún var lítil telpa eru geymdar í hjarta mínu. Amma bu ar broshýr og hress kona, enda ástæða fyrir að ég sem lítil stelpa tók upp á að kalla hana ömmu bu. Minning um að hlaupa upp stigann endalausa í Eskihlíðinni og ömmu sem faldi sig í efstu þrepunum og kallaði bu þegar ég birtist er mér ofarlega í huga. Hún var alltaf fyrri til í þeirri keppni. Einnig var hún dugleg að sína mér bílana og að leyfa mér að fara í bíló í fínu stofunni sinni þar sem ekki var rykörðu að finna. Brúna Volvoinum ók hún einnig eins og hershöfðingi og leyfði mér að sitja í upphækkaða farþegasætinu sem afi lét útbúa fyrir sig. Brúnn Volvo með brjóstsykurdollu í hanskahólfinu var oft mest spennandi farartækið eftir sundferðir með ömmu bu og mömmu í gamla daga. Sérstaklega þar sem amma bu átti það til að stoppa á Kentucky Friend Chicken og bjóða upp á kjúklingaborgara eða maísstöngul og kjúkling. Sá staður var góður í þá daga og en betri með ömmu bu sem fannst svo hentugt að stoppa þar.

Undanfarið hefur ein af fjölmörgum vísum er amma bu söng fyrir mig leitað á hugann. Vísan er Tunglið, tunglið, tunglið mitt taktu mig upp til skýja. Vakti hún óttablendna tilfinningu í barnshuganum þar sem mér fannst hún amma vera að vissu leyti að syngja um horfna ástvini og ættingja sem voru á betri stað þar sem allt var fallegt og gott. Söknuður en á sama tíma ró fylgdi vísunni, tilfinning er ég upplifi núna eftir andlát ömmu bu. Hún er nú hjá afa og kjarnafjölskyldunni er hún unni að öllu hjarta. Því kveð ég hana með þessari fallegu vísu og veit í hjarta mínu að hún er alltaf til staðar og fylgist með okkur. Við hlið hennar er litli selurinn sem hún talaði svo oft um og var fylgjan hennar í lífinu. Efst í huga eru þó orð er einkenndu hennar hugarfar og lífspeki, orð sem hún brosti svo fallega og einlægt yfir á spítalanum þegar við vorum að kveðjast;

Trúðu á tvennt í heimi, tign sem æðsta ber, guð í alheims geimi, guð í sjálfum þér.
Höf.: Steingrímur Þorsteinsson

Ofangreind setning ætla ég einnig að gera að minni lífspeki enda innrætti amma bu mér alltaf að trúa fyrst og fremst á mig sjálfa, hjarta mitt og eigin vilja sem og æðri máttarvöld og styrk.

Elsku mamma mín, Steinunn frækna og Örn ég votta ykkur mina dýpstu samúð sem og öðrum afkomendum og ástvinum ömmu minnar. Hún var mikil kona er snerti fólk með sínum glettna hlátri og lífspeki.

29.6.07

Sei sei!

Já hvað haldið þið nú! Ég var að klára síðasta prófið á fimmta ári í dag... sem er ef til vill ekkert svo frásögufærandi nema hvað að ég skundaði í bæinn eins og maður gerir svo oft að kaupa eitthvað lítið og sætt í tilefni prófloka! Bryndís og litla systir hennar komu með mér og auðvitað DanKortið. En í þetta sinn var það ekki sumarbolur í H&M sem varð fyrir valinu heldur myndarlegur sófi í uppáhaldsbúðinni minni, bolia. Ég hef svipast um lengi í þessari búð en þar sem ég hef verið "húsnæðislaus" þá hef ég ekki getað réttlæt kaup á flottu húsgagni úr henni! Sófinn okkar Jóa er með salt og pipar áklæði, fyrir um 4 til 5 og síðast en ekki síst svefnsófi, þó hann líti ekki út fyrir að vera það. Þannig að nú getum við vel rúmað fólk í gistingu ;) Fékk svo í bónus 1000kr gjafakort og keypti hipókúl marglit kampavínsglös fyrir okkur Jóa til að skála með þegar að flutningunum er lokið...



Svona lítur sófinn út... nema hvað okkar er ögn ljósari! Kíkið inn á www.bolia.com ;)

Efnisorð:

26.6.07

... allur póstur sendist...

... til Jóa og Láru Ny Vestergade XY, 1. sal t.h., 5000 Odense C, Danmörku frá og með 27. ágúst næstkomandi!

Fyrsta sameiginlega póstfangið okkar Jóa verður ofangreint. Reyndar leigjum við frá 1. ágúst en íbúðin stendur tóm þar til við flytjum inn í lok ágúst :D Æðisleg íbúð á einum besta stað í bænum... alveg við enda göngugötunnar, að vísu þar sem strætó má aka. Gata með mörgum listagalleríum, leikhúsi, krá og æruverðugum húsum. Við hinn enda götunnar er svo einn stærsti almenningsgarður bæjarins og sjálf Odense Å. Við munum búa í sama húsi og aðal snobb hárgreiðslustofa bæjarins er í, Rico Bellaccis. Innan seilingar er svo miðbærinn, artífartíbíó, helling af kaffihúsum, sérvöruverslaninr, vídjóleigur, kjörbúðir og auðvitað ísbúðir! Tja verðum svei mér þá eins down town og það gerist í Óðinsvéum.

Íbúðin sjálf er 68fm og endalaust hátt til lofts. Stórt eldhús og bað, ágætis stofa og rúmgott svefnherbergi. Allir gluggar eru stórir og flottir... bjart og fínt. Þrír nágrannar á svipuðum aldri og við í stigaganginum og verslanir og fyrirtæki á neðstu hæðinni.

Við hlökkum til að fá ykkur í heimsókn ;)



P.S. Þetta er bara gatan... íbúðin okkar er alveg efst á myndinni til hægri en þó er aðeins unnt að greina hana með góðum vilja!

Efnisorð:

27.5.07

... upphafið að góðu sumri...








Þessa mynd tók hann Jói minn af brúðhjónunum Bryndísi og Brian Davis síðustu helgi. Við skemmtum okkur konunglega í brúðkaupinu, ekta amerískt brúðkaup en þó ekki 300 manna veisla. Ég var brúðarmeyja, vaknaði árla dags fyrir að fara í hárgreiðslu og hanga með hinum skvísunum fjórum sem voru líka brúðarmeyjar. Brúðurinn var mjög svo taugatrekkt, enda mikil dama á ferð sem sjaldan sést ómáluð og illa greidd til fara. Gekk allt eins og í sögu, en ég var nokkuð þreytt eftir daginn enda heilmikið starf að vera brúðarmeyja :D Sat við háborðið um kvöldið ásamt hinum 9 sem voru í fylgdarliðinu! Foreldrar brúðhjónana sátu ekki á háborðinu, fremur spes siður. Brúðhjónin eru nú á Arruba.

Við Jói höfum líka verið á flakki... fórum til Delaware, skattlausa ríkið til að versla inn... fórum til Penn State, háskólaborgar nálægt frænku minni og frænda og gistum þar á heimavistinni í herbergi með 2 herbergisfélögum "litlu" frænku! Erum nú ein heima í 2 hæða íbúð í San Francisco og höfum lítið gert annað en að slappa af, hanga í tölvunni, góna á imbann, fara í bíó og skoða borgina. Fórum samt á tónleika í gær, vinir Jóa til 10 ára héldu þá en Jói var að hitta þá í eigin persónu í fyrsta sinn á ævinni. Vorum boðin á eitthvern svaðalegan private klúbb á tónleika í fyrrakvöld en héngum heima... þessi klúbbur heitir Supperclup og fólk situr ekki til borðs heldur liggur á beddum út um allt meðan maturinn er borinn í það! Voða mikið artífartí, naktur barþjónn og óperusöngkona sem skemmtir! En við héldum okkur bara heima við... líkt og í dag var Samba Karnival sem fólk er að koma á alls staðar úr heiminum en nei við höldum okkur heima við! Slepptum því líka að fara í Napa Valley í brúðkaup þar á víngarði... njótum þess að hafa tímann út af fyrir okkur :D Annars er mikið prógramm framundan, New York, New Jersey, skoðunarferðir og mótorhjólaferð um San Fran... Endilega kíkið á síðuna hans Jóa, www.jhaukur.blogspot.com ef þið viljið sjá meiri USA myndir ;)

Að lokum, innilega til hamingju Ragnheiður og Andri... nýgiftu hjón :D

9.5.07

... sumardressið!





Plataði Elvu Dögg með mér í búðir áðan, fá second opinion á vandamálinu hvaða skó ég ætti að kaupa og ráð í kjólakaupum! Gekk vel, ákvörðun tekin um sumardressið í ár :D Fengum okkur svo smá kínamat og kögu áður en haldið var á pósthúsið þar sem pakki beið mín (Jóa)! Já Jói minn, þessi hérna bolur er handa þér:


Vonandi verður kappinn ánægður með bolinn sinn... veit reyndar að hann hlýtur að verða ánægður þar sem hann er búinn að dreyma að smella sér í svona bol lengi ;)

Efnisorð: