26.11.02

Þá er það færsla tvo! Þetta gekk nú alveg ágætlega hjá mér í gær og greinilega núna líka. Ætli ég hafi ekki verið að ná mér í eitthvað danskt kvef og vesen. Því ætlaði ég varla að nenna að hjóla þessa tæpu 8km í skólann í morgun bara fyrir einn tíma en samviskusemin yfirbugaði mig. Fyndið að þurfa að hjóla lengur en maður er í skólanum- reyndar fram og til baka. Ég þurfti auk þess að koma ýmsum svona pappírsmálum í lag og fór því að hitta námsfulltrúa læknanema. Rosalega er það þægilegt að hafa eitthvern sér innan handar í þessum málum. Fór síðan með studiegrúppunni minni í heimsókn til supertutorsins okkar uppi á spítala en hún er læknir á genadeildinni. Fengum að fræðast um starfið hennar, sem hljómaði spennandi og nýtt.

Sjálf er ég nú á leið á mína fyrstu vakt á sama sjúkrahúsi á morgun! Á morgun og á fimmtudaginn tek ég fylgivaktir sem tilheyra sygeplejevigarnámskeiðinu mínu. Fyrir þá sem ekki vita er það námskeið fyrir læknanema til að veita þeim réttindi til að taka vaktir sem sjúkraliðar í fyrstu og síðar sem ventilatorar á gjörgæsludeild. Vaktirnar felast í því að sitja hjá einum sjúklingi sem þarf nokkuð nána aðhlynningu vegna til dæmis þunglyndis, geðraskana eða vegna þess að hann vill reyna að stinga af. Einnig getur maður lent á vakt hjá deyjandi sjúkling, en það var víst algengara áður fyrr- því er ég fegin. Maður kynnist því lífinu inni á spítala frá grunni sem sygeplejevigar, en auk þess er starfið ágætlega borgað fyrir fátækan námsmann;) Vaktin byrjar klukkan sjö á morgun þannig það er eins gott að fara snemma að sofa!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home