19.7.07

... sjáumst í draumaheimum...




María Björg Björnsdóttir F. 7. febrúar 1916, d. 10. júlí 2007

Elsku, besta amma bu er búin að fá hvíldina. Við að heyra þessi orð yfirtók friður og ró hjartað en söknuður heltók hugann. Amma bu var búin að eiga góða ævi og ljúf efri ár. Hún bjó í eigin íbúð fram á það síðasta eins og ávalt óskaði sér. Hún átti ljúfar sundir í Þorraseli þar sem hún fékk góðan mat, gott atlæti og vann handavinnu. Ýmsa fallega muni gaf hún mér, muni sem hún hafði málað og saumað að natni. Meðal annars er útsaumaður koddi með litlu lambi á sem mun eiga heiðursess á heimili okkar Jóa. Litla lambið var einn af fjölmörgum fallegum hlutum er hún gaf mér yfir ævina til að veita mér styrk og huggun. Lambið gaf hún mér til að hafa hjá mér úti í Danmörku þar sem ég stunda nám og amma skynjaði að stundum leið mér ekki alltaf sem allra best úti meðan ég var að fóta mig fjarri fjölskyldunni. Örlæti lýsti ömmu bu vel. Hún var sönn amma sem alltaf átti hollan og góðan mat í gogginn sem og mola í nestið við heimför. Helbrigði og hreysti eru orð sem ég sem barn tengdi fljótt við ömmu bu. Ófáar sunderðirnar fór ég með henni þar sem hún synti 500m nær daglega meðan heilsan var sem best, skellti sér í ískalda sturtu og smurði sig hinum ýmsum smyrslum á sólargyllt hörundið. Fegurð, innri sem ytri lýsti henni einnig. Hún var ætíð með fallega liðað ljóst hár og vel tilhöfð. Hún var hjartahlý og huggandi kona er kenndi mér að umgangast ástina með virðingu og á heilsteyptan hátt. Hún hafði að eigin sögn sem ung kona ætlað sér að nema hjúkrunarfræði hér fyrir sunnan en fljótlega hitt hann afa sem hún stofnaði fallegt heimili með. Þó að hún næði ekki að fara í hjúkrunarfræðina þá má segja að hennar eiginleiki til að vera öðrum til staðar hafi gagnast fjölskyldunni best. Þó efast ég ekki um að við amma bu værum skólasystur í dag ef hún hefði upplifað hvernig tímarnir eru breytir. Hún var afar stolt af mér í mínu læknisfræðinámi og spennt yfir læknavísindunum. Talaði hún oft um hana langömmu mina, móður sína sem var ljósmóðir og nánast fæðingarlæknir héraðsins hér áður fyrr. Kjarnakona er fór á milli bæja í verstu vetrarhríðunum, kona sem var henni og mér mikill innblástur.

Síðustu dagana var amma bu þó veik. Eigi að síður var stutt í brosið sem einkenndi hana. Ég heyri einnig glettin hlátur hennar óma fyrir eyrunum og allar sögunar um lífið í sveitinni þegar hún var lítil telpa eru geymdar í hjarta mínu. Amma bu ar broshýr og hress kona, enda ástæða fyrir að ég sem lítil stelpa tók upp á að kalla hana ömmu bu. Minning um að hlaupa upp stigann endalausa í Eskihlíðinni og ömmu sem faldi sig í efstu þrepunum og kallaði bu þegar ég birtist er mér ofarlega í huga. Hún var alltaf fyrri til í þeirri keppni. Einnig var hún dugleg að sína mér bílana og að leyfa mér að fara í bíló í fínu stofunni sinni þar sem ekki var rykörðu að finna. Brúna Volvoinum ók hún einnig eins og hershöfðingi og leyfði mér að sitja í upphækkaða farþegasætinu sem afi lét útbúa fyrir sig. Brúnn Volvo með brjóstsykurdollu í hanskahólfinu var oft mest spennandi farartækið eftir sundferðir með ömmu bu og mömmu í gamla daga. Sérstaklega þar sem amma bu átti það til að stoppa á Kentucky Friend Chicken og bjóða upp á kjúklingaborgara eða maísstöngul og kjúkling. Sá staður var góður í þá daga og en betri með ömmu bu sem fannst svo hentugt að stoppa þar.

Undanfarið hefur ein af fjölmörgum vísum er amma bu söng fyrir mig leitað á hugann. Vísan er Tunglið, tunglið, tunglið mitt taktu mig upp til skýja. Vakti hún óttablendna tilfinningu í barnshuganum þar sem mér fannst hún amma vera að vissu leyti að syngja um horfna ástvini og ættingja sem voru á betri stað þar sem allt var fallegt og gott. Söknuður en á sama tíma ró fylgdi vísunni, tilfinning er ég upplifi núna eftir andlát ömmu bu. Hún er nú hjá afa og kjarnafjölskyldunni er hún unni að öllu hjarta. Því kveð ég hana með þessari fallegu vísu og veit í hjarta mínu að hún er alltaf til staðar og fylgist með okkur. Við hlið hennar er litli selurinn sem hún talaði svo oft um og var fylgjan hennar í lífinu. Efst í huga eru þó orð er einkenndu hennar hugarfar og lífspeki, orð sem hún brosti svo fallega og einlægt yfir á spítalanum þegar við vorum að kveðjast;

Trúðu á tvennt í heimi, tign sem æðsta ber, guð í alheims geimi, guð í sjálfum þér.
Höf.: Steingrímur Þorsteinsson

Ofangreind setning ætla ég einnig að gera að minni lífspeki enda innrætti amma bu mér alltaf að trúa fyrst og fremst á mig sjálfa, hjarta mitt og eigin vilja sem og æðri máttarvöld og styrk.

Elsku mamma mín, Steinunn frækna og Örn ég votta ykkur mina dýpstu samúð sem og öðrum afkomendum og ástvinum ömmu minnar. Hún var mikil kona er snerti fólk með sínum glettna hlátri og lífspeki.

4 Comments:

At júlí 19, 2007 12:34 e.h., Blogger Sandra said...

Mikið er þetta fallega skrifuð minningargrein hjá þér.

 
At júlí 19, 2007 2:01 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Með tárin í augunum votta ég þér og fjölskyldu þinni samúðar. Hún amma þín hefur verið yndisleg kona. Mjög falleg skrif hjá þér, hlýr persónuleiki ömmu þinnar skín í gegnum skrifin. Knús elsku Margrét mín. Kveðja frá Odense.

 
At júlí 22, 2007 10:50 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Ég samhryggist þér innilega vegna fráfalls ömmu þinnar elsku Margrét Lára. Mjög falleg grein sem þú hefur skrifað um hana.Kv.KatlaÞöll

 
At júlí 22, 2007 11:20 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Elsku vinkona
Ég samhryggist þér og fjölskyldu þinni innilega vegna fráfall ömmu þinnar. Minningagreinin sem þú skrifar um ömmu þína er alveg ofboðslega ljúf, falleg og gefur skýra mynd af því hvernig amma þín var og samband ykkar.

Hver skilur lífsins hulda heljardóm
er haustsins nepja deyðir fegurst blóm,

að báturinn sem berst um reiðan sjá
brotna fyrst í lendingunni má.
Að einn má hlýða á óma af gleðisöng,
annar sorgarinnar líkaböng.
(höf. Guðrún Jóhannsdóttir)

kveðja
Gunnhildur Lilja

 

Skrifa ummæli

<< Home