Já það er svo sannarlega margt að gerast í lífi mínu þessa dagana. Margar nýjar upplifanir og því ýmislegt til að segja frá. Verið því undirbúin undir langt blogg! Ég er búin að ganga með í hausnum ýmis blogg um viðburði dagsins en einfaldlega ekki haft tóm til að deila þeim hérna á blogginu... sem sagt nóg að gera enda er ég komin heim á Klakann og allar aflögustundir notaðar til að heilsa upp á vini og ættingja.
Prófin gengu alveg rosalega vel og ég var því í skýjunum yfir því. Mér var búið að kvíða mikið fyrir þeim en þegar á hólminn var komið reyndist sá kvíði óþarfur. Mér gekk glimrandi vel og við tók rútínan eftir próf. Rútínan er alltaf sú sama, ekkert húlumhæ þar sem maður á yfirleitt annað hvort flug heim til Íslands samdægurs eða daginn eftir. Því er farið í að þrífa allt hátt og lágt eftir próf, útréttast, pakka niður langt langt fram á nótt, koma dóti niður í geymslu þar sem ég geymi alla búslóðina, þvo þvott og þar fram eftir götum. Ég var til hálfsex um nóttina og því lítið sofin þegar ég vaknaði um sjöleytið til að ná lestinni til Roskilde þar sem ég hitti á Siggu Maju og Jón Dal rokkarapar sem voru á Roskilde festivalet og snæddi með þeim brunch í hlandfýlunni sem hvíldi yfir bænum... hehe. Annars leyfði ég mér að fagna próflokum smá og fór til Heiðdísar og Magga í grill þar sem skálað var í kampavíni, skál fyrir "sumarfríinu". Takk fyrir mig ;)
Úfff hvað ég hlakkaði til að komast í vélina, vansofin eftir próftörnina. En nei nei, á Kastrup var allt yfirfullt í innrituninni og mikill hitamolla. Síðar kom í ljós að það var 8-10 tíma seinkun vegna vélarbilunar heima. Það sem bjargaði málunum er að ég kynntist þrælfínni stelpu um þrítugt sem var á leiðinni heim. Hún er að læra tannfræðinginn í Kaupmannahöfn og nennti sjálf ekki að fara heim eða hanga í Fields í góða veðrinu þannig að við skelltum okkur inn til Kaupmannahafnar í búðir og á kaffihús eftir að hafa innritað töskurnar og komið handfarangrinum í geymslur. Heppin ég, fann frábæran ferðafélaga þannig að ég komst hjá því að sofna á bekk á Ráðhústorginu, fá sólsting og missa af fluginu plús að ég slapp við að borga af ríflega 10kg yfirvigt vegna seinkanna. Loks kom þó í ljós að þetta varð aðeins 5 tíma seinkun, akkúrat passlegt til að við náðum að sóla okkur á kaffihúsi, versla smá, koma okkur út á völl og fá matarpening frá IcelandExpress sem við áttum rétt á vegna seinkanna.
Mikið var ég samt þreytt, gleymdi meira að segja fartölvunni minni í öryggistjékkinu og fattaði það ekki fyrr en svona 10 mínutum seinna mér til mikillar skelfingar. Sem betur fer var ekki komið sprengjuleitarteymi til að taka hana í sundur. En í heildina litið var þetta frábært ferðalag, enda alltaf gaman að hitta á skemmtilegt fólk sem maður smellur svona saman við í stað þess að vera flækjast einn.
Tveimur dögum eftir heimkomu byrjaði svo ballið hjá mér í hlutverki deildarlæknis. Það er heilmikil reynsla að takast á við framtíðarstarfið. Á geðsviði LSH er hins vegar alveg frábært starfsfólk og afar góður andi ríkir á deildinni minni. Mér líkar því vel og er stöðugt að takast á við nýja hluti, góð tilbreytning frá því að vera einungis að lesa um hlutina.
Nauðsynlegt er þó alltaf að taka frí eftir vinnu þó maður vilji endalaust vera að lesa sér betur til. Helgin var því tekin frá í sumarbústaðaferð upp á Þingvöll með góðu fólki, Gunnhildi, Dodda, Kristófer Snæ, Gunna og Gísla. Farið var í göngur, grillað frábæran mat, spilað fram á rauða nótt, róið út á bátnum, farið í smá landgræðslu á lóðinni og bara slappað af. Einnig kom Magga og vinkona hennar í heimsókn og það var frábært að hitta á hana.
Að lokum, ég og Jói erum "orðnir" Hafnfirðingar... svona alla vega þrjár næstu vikunar. Við erum að passa hús systur minnar með öllum "gæludýrabúpeningnum" sem því fylgja. Hér er mikill lúxus, einbýlishús á stórri lóð með potti og gufubaði úti í hrauninu og því hvet ég fólk til að hóa í mig ef það vill kíkja í heimsókn ;)
12.7.06
Um mig
- Nafn: Margrét Lára
- Staðsetning: Odense, Fyn, Denmark
... stud. med. vonandi bráðum cand. med. á lokasprettinum í læknisfræðinni við SDU Óðinsvéum... ... kærasta hans Jóhanns Hauks... dóttir Jóns og Sifjar... systir Villu, Maju og Ívars... frænka 10 "gríslinga"... ... "gamall" fiðluleikari er reynir að grípa í fiðlunna inn á milli...
Previous Posts
7 Comments:
Já, þetta er alveg heilmikið sem þú hefur upplifað undanfarna daga, og já takk fyrir gönguferðina:-)
Það er aldrei að vita nema að maður kíkji í pottinn hjá ykkur Jóa:-)
Sjáumst á föstudaginn:-)
Kveðja
Sandra
oh mig langar að heimsækja þig og komast í heitan pott! gott þú fannst ferðafélaga heim, ekkert verra en að vera að hanga einn þegar flugvélum seinkar. Gangi þér vel í vinnunni, þetta er örugglega voða spennandi. knús heiðdís
Takk fyrir mig þarna um daginn
Sandra: Takk fyrir gott partý, gaman í svona 2sinnum 15 ára afmælum ;)
Heiðdís: Endilega komdu og taktu smá sól með þér í farteskinu ;) Úff annars eru skemmtilegir tímar hjá ykkur Magga framundan, Evrópuflakk.
Sara: Já takk sömuleiðis... hey og ég komst að því að það er bara þrælfínt að vakna svona snemma ;)
sakna þín skvísa hérna í baunalandi, hvenær byrjaru annars í klinikinni hérna er það eftir haustfríið? knús heiðdís
Takk fyrir það, sjálf er ég farin að sakna allra úti þó svo að maður hafi það nú ljúft hér heima á Fróni.
Það styttist í að ég fari að fara út.... fer sunnudaginn 1. október. Er að byrja í verknámi næsta mánudag hjá heimilislækni í Óðinsvéum. Verð á níundu hæð í háhýsinu við BGbank á Fisketorvet. Spændende ;)
Hæ skvís!
Á ekki að virkja bloggið á meðan þú ert úti?
Bestu kveðjur frá Huldulandi :D
Skrifa ummæli
<< Home