Gleðilegt nýtt ár !
... já er ekki komið tími á nýtt blogg... svona hljóma nú nokkuð mörg blogg hjá mér í upphafi en jæja gamla góða afsökunin um að það er alltaf nóg að gera er svo sem yfirleitt gild. Ég var heima á Íslandi frá miðjum nóvember alveg rétt fram á ný árið, fór sem sagt aftur til Danmerkur klukkan átta á nýársmorgni! Í nóvember og fram í miðjan desember var ég í verknámi á Barnaspítala Hringsins, LSH. Það var aldeilis lærdómsríkt, það var tekið frábærlega vel á móti mér af læknum, hjúkkum og öðru starfsfólki. Mér finnst ég hafa lært heilmargt á þessum rúma mánuði sem ég var þar, ég flakkaði á milli deilda og var einnig í kennslu með læknanemum á 5 árinu heima. Auðvitað var miserfitt að sjá þessi litlu veiku kríli og stóru krakkana líka en ótrúlegt hvað þau voru dugleg. Skemmtilegir sjúklingar, börn eru svo innileg, hreinskilin og já fljót að batna þegar þeim fer að skána af veikindunum. Vá ég hafði engan áhuga á barnalæknisfræði en úfff hann hefur heldur betur kveiknað eftir reynsluna á barnaspítalanum.Vikuna fyrir jól plataði pabbi mig svo með sér til að koma nokkra daga í "auka"verknám á kvennadeildina upp á Lansanum. Hehe ætlaði nú fyrst ekki að þora að fara með honum, hrædd um að vera stimpluð algjör pabbastelpa en það kom nú ekki til þess og þessi dagar nýtust afar vel. Ohhh þó það sé enn langt til og nógur tími til að hugsa sig um þá held ég að ég muni eiga erfitt með að gera upp við mig hvaða sérgrein mig langar í, allt svo spennandi... en tja er nú samt komin með smá óskalista ;)
Árið 2006 er nú búið að vera gott ár. Ég hef nú aldrei gert neitt annáll hérna á blogginu en jæja ætla að koma með nokkra punkta hvað var svona frábært við árið sem var að líða! Ábyggilega ekki margir sem nenna að lesa þetta, geri þetta nú þá bara fyrir mig sjálfa ;)
Janúar:
Var heima á Fróni fram yfir þrettándann. Fór í lok janúar í 5 daga heimsókn til hennar Þóreyjar, loksins að maður komst til hennar, stelpan búin að búa rúm 5 ár í Wales! Var svo rúman dag ein í London, rölti um og skoðaði túristastaðina. Eftir heimsókina fór ég heim til Íslands frá London og var á landinu fram í miðjan febrúar, þar sem það var milliannarfrí.
Febrúar:
Læri læri!
Mars:
Jói minn kom í heimsókn til baunaveldisins og við fórum að skoða möguleika á að hann kæmi hingað út í skóla veturinn 2006 eða haust 2007... Mamma kom seinna í mánuðinum og við skelltum okkur m.a. til Þýskalands að versla páskasúkkulaði :P Annars bara skóli þó ég hafi nú farið vel fyrir páskafrí heim og tekið mér rúmt "páskafrí" á klakanum... Jói bjó með honum I. Bjarna á Hjarðarhaganum ég þurfti nú að hafa gætur á að það væri nú allt í orden þar... himmm ;)
Apríl:
Rétt fyrir páska réði Jói sig í rosa flott starf hjá KB banka, frestuðum því aðeins plönum með að hann kæmi hingað út en stefnan hjá KB banka er að þeir munu styrkja hann til náms og líka sjá til þess að hann fengi svigrúm til að klára nokkrar einingar sem hann átti eftir af bachelorinum haustið 2006. Ætlar hann því að koma út í skiptinám í masterinum haust 2007 og ég get verið voða mikið heima núna í vor að skrifa rannsóknarverkefni tengt náminu. Ég flutti úr íbúðinni minni gömlu góðu á Pjentedamsgade í lok mánaðarins með hjálp Elvu, Ásu og Baldurs. Framleigði svo hjá Elvu Dögg þar sem hún fór í verknám á Íslandi í maí og júní... passaði vel og þægilegt að búa rétt hjá skólanum :D
Maí:
Pabbi og mamma komu í heimsókn til Danmerkur, sumarið var nánast komið í Mörkinni þá með sól og hita... Fórum í vikuferð til Torrevije á Spáni, Jói kom með beint eftir vorprófin! Frábær tími, forskot á sumarið. Jói kom svo með mér til Danmerkur eftir Spánarferðina og var hérna í tæpar 2 vikur... ljúft þó að himmm sumarið hafi eitthvað farið í fýlu og það var leiðinda kuldakast allan tímann þegar hann var.
Júní:
Sól og hiti... og argh lestur fyrir þung próf! Veikindi í fjölskyldunni voru ekki til að létta undir álagið og því gott að komast heim um mánaðarmótin júní júlí...
Júlí:
Wow fyrsta skrefið mitt í að verða fullorðin, tók stöðu "aðstoðarlæknis" á geðinu... lærdómsríkt og úff stundum frekar strembið! Fór sem betur fer ekki að taka vaktir fyrr en undir lok mánaðarins þannig að maður fékk smá tækifæri að hafa það gott, vera með fólkinu mínu og fara upp í sumarbústað og svona. Áttum m.a. frábæra helgi á Þingvöllum í geggjuðu veðri með Gunnhildi og fjölskyldu og Gunna og Gísla... fórum líka í rosalega skemmtilega spontant útilegu bara ég og Jói alla leiðina til Skaftafells í þessu líka frábæra veðri... ohhh hlakka til næsta sumars! Sandra systir Jóa átti stórafmæli, hélt upp á það með pomp og pragt afmælishelgina sína í júlí (14. júlí). Fórum líka á tónleika á NASA með Belle&Sebastian, frábærir!
Allan mánuðinn vorum við Jói að passa húsið þeirra Maju og Badda í Hafnarfirðinum meðan þau voru á fjölskylduferðalagi í Svíþjóð. Vel á minnst heimilisstörfum fylgdi að sinna tilheyrandi fiðurféi og búpening... margar skondnar uppákomur tengdar dýrapössununni! Ég og Jói tókum okkur svo á og skelltum okkur á útiæfinganámskeið hjá Bootcamp... púl púl en tja það skilaði nú eitthverjum árangri :D
Ágúst:
Vinna vinna... Fór að taka vaktir á þessum tíma. Um verslunnarmannahelgina hafði ég þó frí, fórum í frábæra dagsferðir frá Reykjavík og gengum meðal annars upp að Glym í botni Borgarfjarðar... eftir þá ferð langar mig að fara að Glym hvert sumar! Hina fríhelgina mína í ágúst eða "Menningarnóttarhelgina" þá gerðum við hins vegar akkúrat það öfuga, meðan allir héldu sig í Reykjavík skelltum við okkur í útilegu vestur á Snæfellsnes, gistum í almenningi og nutum þess að vera ein af fáu ferðalöngunum fyrir utan rútuna af ellilífeyrisþegum frá Dalvík sem voru fyrir tilviljun akkúrat á sama rúnti og við! Stoppuðu þau alltaf á sama stað og við, skemmtilegt fólk hehe.
September:
Ég var búin að ákveða að fresta verknámi sem ég átti að vera í september fram í desember og var því að vinna á geðinu fram undir lok mánaðirns. Var þó svo sniðug að plana það þannig að ég tók eina viku í frí áður en ég fór út, enda var þess heldur betur þörf. Ljúft var að slappa af síðustu dagana áður en haldið var út til baunaveldisins, við Jói skelltum okkur meðal annars á tónleika með Nick Cave í Laugardalshöllinni með vinapari okkar og vinum. Sátum á besta stað og sáum vel þennan sérstaka karakter sem hann Nick Cave er, reykjandi upp á sviði þrátt fyrir reykbann í höllinni og syngjandi melodramatíska ástaróða...
Október:
Framleigði íbúð af búddistavinkonu Jóa og Söndru í "Konungahverfinu" svokallaða í Óðinsvéum, kom vægast skemmtilega á óvart... mjög gamaldags þar sem ég þurfti að deila sturtu í kjallara næsta stigagangi með öllum íbúum húsins! Það var nú samt bara sjarmerandi og kósý eftir allt saman að vera þarna. Ég var svo í verknámi hjá frábærum heimilislækni sem hafði stofu í miðjum Óðinsvéum, á 10. hæð í háhýsi! Gaman og ganglegt. Fór svo í sveitina til Augustenborg í verknám á geðspítala sem gekk einnig vel. Þar bjó ég nú í höll, já það er alveg satt!
Jói kom í heimsókn undir lok mánaðirns, veit ekki hvort hann var að stíla inn á að vera hérna þegar "jólasnjórinn" féll hehe en það var voða gott að hafa hann hjá sér í rúma viku :D Skelltum okkur meðal annars í helgarferð á 5stjörnu hótel til Malmö, mycket bra weekend!
Nóvember:
Skóli og þar af leiðandi lærdómur... Villa kom með vinnunni í helgarheimsókn til Danmerkur og ég náði að hitta á hana og skoða með henni ásamt hópi af forvitnum lyfjafræðingum lyfjapökkunarfyrirtæki hérna í Óðinsvéum og skreppa svo með til Nyhavn, Köbenhavn og hafa það gott yfir góðum mat... Skondið, annað árið í röð sem hún kemur á þessum tíma vegna vinnu! Ég flutti svo yfir í íbúðina hennar Ragnheiðar um miðjan mánuðinn þegar hún var flogin heim til fyrirheitna landins í verknám. Ég mun framleigja íbúðina hennar fram til byrjun febrúar eða þar til rétt áður en ég fer sjálf heim að vinna ritgerðarvinnuna. Ljúft að búa í íbúð þar sem sturtan er innan veggja heimilisins og síðast en ekki síst rétt hjá spítalasvæðinu. Já 20-30 mínutna aukasvefn á morgnana kætir sko sannarlega. Fór svo heim til Íslands 18. nóvember í verknám á Barnaspítalanum.
Úff, nóvember og aðventan einkenndust af hryllilegum tíma áts. Við Jói fórum nánast hverja helgi fram að jólum út að borða, jólahlaðborð KB-banka á Apótekinu, jólahlaðborð/villibráðarborð/þakkargjörðarhátíðarmáltíð í Perlunni í boði pabba Jóa, leikhúsferð, og þó nokkur mataboð. Sem betur fer dreif ég mig á Bootcamp námskeið þannig að ég gat nú alveg leyft mér smá matarsukk! Hehe reyndar fékk ég svona tannimplant í lok mánaðarins í stað barnatannar sem var orðin nokkuð lúin, var því ráðlagt að borða bara með annarri hlið tanngarðsins næstu 8vikunnar... þorði nú ekki að segja tannsa hversu mikið át væri framundan ;)
Desember:
Aðventa og jól... allt þetta klassíska gert með fjölskyldunni og vinum auk þess að vera í verknámi og lestri! Við Jói fórum á aðventutónleikana í Bústaðakirkju, langt síðan maður hefur komist á þá og gaman að sjá barnakórinn og bjöllukórinn, nostalgían yfirtók mig. Jói minn tók upp á því að hætta hjá KB- banka þrátt fyrir öllum okkar plön um að hann myndi vera vinna þar fram undir lok sumars 2007. Hann dreif sig þó yfir til Kaupþings banka, jakkafatakallinn minn! Við Jói fórum í ófá jólaboðin ef svo má kalla fjölskylduboðin hjá systkinum mínum og spilakvöld hjá vinum. Ég varði í fyrsta skipti aðfangadagskvöldi án mömmu og pabba þar sem ég var hjá fjölskyldu Jóa í Mosfellsbæ þar sem eldaður var dýrindis kalkúnn með tilheyrandi meðlæti og pakkarnir opnaðir á yfirvegaðan hátt án yfirspenndra lítilla ættingja. Þó að vissulega þá hafi komið smá söknuður í mann þegar jólabjöllurnar hringdu inn jólin þá var mjög ljúft og gaman að vera með Jóa og "tengdó" og hitta svo bara mömmu og pabba síðar um kvöldið og borða "jólakonfektkökun". Já hefðir og vani geta verið þreytandi og kedeligt mynstur sem gott er að brjóta upp ;) Á gamlárs vorum við svo í Geitlandinu, ég kláraði að pakka niður fyrir Danmerkureisu á milli rétta og milli þess að fylgjast með fréttaannálinum með ömmu, mömmu, pabba og Jóa. Vinapar okkar, Heiða og Bjössi, kom svo yfir í Geitlandið til að horfa á skaupið. Síðan var skotið upp sólum og neyðarblysum frá Sóleynni DS ásamt Víkingsflugeldum fyrir í heildina séð góðu og ljúfu ári hjá Búlandsgenginu... og auðvitað var skálað fyrir nýju og spennandi ári, 2007.
Jammm í heildina séð rosalega ljúft ár og mér finnst ég hafa náð að þroskast heil mikið, sérstaklega eftir sumarstarfið. Árið 2007 lofar heldur betur góðu. Jói komin yfir í aðra deild hjá Kaupþing sem þýðir að hann mun "neyðast" til að fara í nokkrar vinnuferðir hingað til Danmerku meðal annars. Ég er að fara að skrifa kandidatsverkefni á vorönninni 2007 sem hefst í febrúar. Ég get því verið mikið heima, mun skrifa um fyrirbrigði sem nefnist Hustkeanæstesi eða Awareness during anasthesia... eða á okkar ástkæra ylhýra, Meðvitundarstig á meðan svæfingu stendur! Spennandi, þið fáið án efa að heyra nánar um það síðar. Svo mun ég hefja lokaárið mitt í læknisfræði, spúký! Margt spennandi einnig framundan á árinu sem tengist ekki læknanördinu sem býr í mér... Jói útskrifast sem bachelor í hugbúnaðarverkfræði í lok febrúar. Við Jói erum einnig boðin í brúðkaup í maí hjá Bryndísi frænku minni og Brian. Bryndís er hálfbandarísk og mun brúðkaupið fara fram í Pennsylvaniu, útibrúðkaup með öllu tilheyrandi. Við ætlum að skella okkur og fara svo í 2 vikna ferðalag um USA, heimsækja ættingja í New York og vini í Kaliforníu! 2 vinapör okkar munu svo gifta sig í sumar, ættarmót í fjölskyldu Jóa verður haldið í Litlu-Hlíð fyrir vestan, frænka mín frá USA mun koma og búa hjá mömmu og pabba í sumar og vinna við vísindastörf í Flatey... nokkur lítil kríli eru væntanleg á árinu, Sigga Maja og Margrét Erla eiga von á sér á svipuðum tíma í apríl og Eyrún Lóa vinkona er búin að eignast myndarlegan dreng, Ingvar Alexander á sjálfum þrettándanum.
Langt blogg... efast um að margir endist í að lesa það en tja ef viljinn er fyrir hendi þá er hægt að lesa smá bút í einu því án efa er eitthver bið í næsta blogg frá mér... nóg að gera framundan í skóalnum og Jói á leiðinni hingað í helgarferð í þessum töluðu... er því sjálf á leið til Köben að hitta hann og jamm vinnufélaga hans þar sem þau verða þar fram á annað kvöld á vinnufundum. En wow gistum á þessu líka flotta hóteli www.front.dk ... því smá "örfrí" framundan hjá mér!
8 Comments:
Mjög skemmtileg lesning :D Alltaf gaman að lesa bloggið hjá þér!
Vá þetta var aldeilis blogg! Skemmtilegt að lesa hvað hefur á daga þína drifið í ár og það sem framundan er, húff ég var að hugsa um að gera annál á mínu bloggi en hef mig ekki í það strax, alltof langt, kannski í fríinu í byrjun febrúar. Góða reisu til köben, sjáumst vonandi "bráðum" einsog maður segir stundum. kveðja heiðdís
Takk fyrir það stelpur, gaman að sjá að það vogaði eitthver sér í þessa lestningu ;)
Skemmtileg og fræðandi lesning hjá þér Lára mín:-)
Kraftur í þér að taka saman pistil um síðasta ár;-)
Gangi þér vel og hafðu það gott.
Sjáumst bráðlega
Kveðja
Sandra
Ég tók þetta í tveimur bútum:) Mjög skemmtilegur lestur! Mér finnst aðdáunarvert hvað þú ert dugleg að gera skemmtilega og nýja hluti, og alltaf á ferðinni. 2007 verður eflaust spennandi líka!
Skemmtilegt að lesa þetta, þú ættir að geyma þetta einhverstaðar hjá þér, það er örugglega gaman að lesa svona aftur eftir einhver ár þegar maður er farin að gleyma þessum tíma ;)
Takk fyrir það, gaman að sjá að það eru eitthverjir sem höfðu sig í að lesa ;) Já, maður verður að muna að taka afrit af blogginu sínu öðru hvoru, án efa gaman að þessu í framtíðinni...
Hæ hæ
Ótrúlega gaman að lesa þetta, ég er með svo mikið gullfiska minni að ég ætti mjög erfitt með að rifja upp hvað ég gerði seinastliðið ár ;) Ætli ég þyrfti ekki að gera annál eftir hvern mánuð he he nei ég segi bara svona.
sem sagt árið 2006 hefur verið annríkt en frábært ár hjá þér og svo virðist sem að árið 2007 ætli að vera ekkert verra.
Hafðu það gott og farðu vel með þig :)
Skrifa ummæli
<< Home