30.4.06

Danmörk í dag!

Hvað finnst ykkur um að það sé haldin brjáluð heræfing með löggubílum, vopnuðum hermönnum og leikurum sem eru snúnir niður í handjárn á gangstéttina á kollegilóð? Sé í anda hvernig fólk myndi bregðast við á stúdentagörðunum heima þegar það væri í sakleysi sínu að fara út og það væri sprengjuleit og víkingasveitin á svæðinu bara sí svona. Í gærmorgun var sem sagt trúlega haldin heræfing hérna á lóðinni án þess að láta okkur yfir 100 manns sem búum á svæðinu vita! Fólk vaknaði bara við lætin eða var að fara út í sakleysi sínu og var mætt beint í aksjónið og hasarinn.

Í þokkabót voru víst óeirðir í Vollsmose, bæjarhluta hérna í Óðinsvé aðfaranótt laugardagsins eftir eitthverjar ónauðsynlegar og harkalegar handtökur á ráðgjafafulltrúum minnihlutahópa í Evrópu og imama sem voru að koma hingað frá Frakklandi. Góðar mótttökur á gestum þar! Maður skilur svo sem að lögreglan sé á varðbergi gagnvart hugsanlegum hryðjuverkamönnum eftir allt sem á undan er gengið og veit ekkert hvernig þetta allt atvikaðist en þetta varð sem sagt til þess að allt varð kreisý um stund þarna upp frá... En jamm þessi heræfing hefur ekki verið í sambandi lætin í "litla Istanbul" eins og Vollsmose er oft uppnefnt, þó ábyggilega hefði ég farið að tengja þetta eitthvað saman og panikka EF ég hefði ekki legið sofandi hátt upp á háalofti og ekki vaknað við öll lætin!! Hehe... enda var það fyrsta sem ég fékk að heyra þegar ég vaknaði af værum blund hvort ég hefði nú ekki orðið vör við öll ósköpin!!

29.4.06

Á reynslulausn...

... frá Prison Break... ég efast þó um að ég komist undan stofufangelsinu með því að reyna að halda mig frá þessum þáttum! Argh og gargh hvað þetta er spennandi... hvað gerum við Nína ef að það er ekki bara ein þáttaröð heldur 10! Við fórum að velta þessu fyrir okkur áðan þegar við vorum að byrja að horfa á himmm 6 þáttinn í röð... þorum ekki að hugsa það til enda. Spurning hversu lengi ég held það út að ná í næsta skammt... 1 eða 2 daga, eða kannski bara 1 eða 2 klukkustundir!

26.4.06

Í sól og sumaryl

Allt í einu kom vorið... á laugardaginn þegar ég var að flytja út úr íbúðinni minni til rúmlega þriggja ára þá helltust hlýindin yfir og sólin fór að skína. Undanfarna daga hefur svo verið hið fínasta veður og allt að 18 stiga hiti. Já nú er sko dejligt að hjóla um í fuglasöng og dirrindí, blóm út um allt og tréin að laufkast. Fólk er líka orðið ansi iðið að fara út að skokka, út að ganga, flatmaga í almenningsgörðum með öl og hygge sig og í fótbolta, frisbí og ýmsum leikjum... hehe gæti sagt hjóla en Óðinsvéingar eru nú alltaf duglegir að því.

Síðan ég kom út hefur nú ýmislegt drifið á daga mína. Þegar ég opnaði póstkassann á sunnudagskvöldið/nóttina þreytt eftir ferðalagið frá Íslandi blasti við mér tilkynning um að ég ætti að flytja út 1. maí en ekki 15. maí eins og ég gerði ráð fyrir þegar ég sagði upp íbúðinni. Úppsí þennan misskilning verð ég eitthvern veginn að geta leiðrétt hugsaði ég með mér þar sem ég yrði akkúrat algjörlega önnum kafinn í skólanum og námskeiðum kringum þennan tíma og gæti því ekki staðið í eitthverjum stórræðum á sama tíma. En svo var hún Elva svo sæt að leysa málið á snilldarveg, sagði að ég gæti bara flutt inn til sín eða sem sagt 22. apríl þar sem hún er jú á heimleið til Íslands á morgun, 27. apríl, og ég ætlaði hvort eð er að flytja inn til hennar... Þannig að nú er ég flutt út úr litlu, kósý íbúðinni minni á Pjentedamsgade og búin að koma nánast öllu dótinu mínu fyrir í geymslunni hjá Elvu... tæpum þrem vikum fyrr en til stóð! Íbúðin hennar er nú enn skemmtilegri en mín, alveg inn á spítalasvæðinu nánast þannig að ég get ekki verið þekkt fyrir að mæta of seint í skólann, björt, rúmgóð og upp við stóran garð með fullt af blómum og trjám með syngjandi fuglum í... reyndar kirkjugarður en tja bara góðar sálir sem fylgja honum. Hér mun ég búa næstu 2 mánuðina þar til ég fer heim. Á næstu önn verð ég nú meira og minna heima en svo sniðuglega vill til að þá 2 mánuði af fimm sem ég þarf húsnæði í Óðinsvéum á næstu önn verður hún Ragnheiður sem býr á þessu sama kollegii heima í verknámi þannig að ég mun framleigja íbúðina hennar. Svolítið púsl en ekki svo flókið ;)

Prófið í geðblokkinni seinasta föstudag gekk ljómandi vel og því get ég nú tilkynnt opinberlega að ég er að fara á geðdeild í sumar í þrjá mánuði... að vinna sem aðstoðarlæknir. Það er nú ekki laust við að maður sé með pínu hnút í maganum yfir því en vonandi gengur nú allt vel og ég er spennt yfir því að takast á við það að vinna sem aðstoðarlæknir... í fyrsta sinn. Annars var ég á undirbúningsnámskeiði í gær fyrir verðandi aðstoðarlækna á geðdeild, tvisvar sinnum þrír tímar fóru í það að undirbúa okkur undir hvað bíður okkar.

Og meira skólatengt! Núna er ég á 2 vikna námskeiði í húðsjúkdómum. Mér finnst þetta hljóma ansi spennandi fag og án efa áhugavert að leggja þessa sérgrein fyrir sig. Við hittum og ræddum við eina átta sjúklinga í dag með ýmiskonar vandamál sem sum hver flokkast ekki einungis undir húðsjúkdóma... úff mig klæjar. Einn var þó engan veginn hress með okkur fuglnabjargið sem hékk yfir honum... lítill þriggja mánaða hnoðri sem vildi bara fá að kúra í fanginu á pabba og ekkert láta pota í sig eða góna á sig!!

19.4.06

Einn í tilefni prófs í geðlæknisfræðum

They're anti anxiety pills...


... BUT I AM AFRAID TO TAKE THEM!

16.4.06

Litli bjargvætturinn

Dagarnir eru búnir að líða hratt að undanförnu... ég trúi ekki að ég sé á leið aftur út :(
En það þýðir þó líka eitt, það eru 4 vikur í sólina á Spáni. Vúhú.

Fyrir rúmlega viku síðan var litið upp úr bókunum og ekið á rauða Saabinum ásamt henni Þóreyju áleiðis til Keflavíkur lesist úthverfi Hafnarfjarðar. Tekið var hús af lítilli fjölskyldu í snorturi íbúð og haft það kosý saman. Takk fyrir mig Atli Þór, Ragnheiður og Andri. Eftir gott spjall, vín(jarða)berjaát og leik á teppi var lagt af stað aftur til borgarinnar. Ljóst var þó að það þyrfti að koma við á bensínstöð og upphófst nú mikil leit af bensínstöð með fokdýru 98oktana bensíni sem Saabinn drekkur í sig. Eftir þó nokkurt hringsól á síðustu droppunum var dælt á bílinn á Esso "þjónustustöð" í Lækjargötu Hafnarfirði. Jæja, svo var ferðinni heitið áfram nema hvað að nú strækaði bílinn algjörlega... orðin rafmagnslaus. Þrátt fyrir að vera á stað þar sem maður væntir þess að fá lágmarksþjónustu fyrir bílinn fengum við enga starthjálp, gátum að vísu keypt startkapla dýrum dómum! Ákváðum við því að hringja í stóru sys sem einmitt býr rétt hjá til að koma okkur til bjarga sem hún gerði... sendi að vísu manninn sinn. Áfram var haldið og Þórey komst heim til að borða...

Þar sem Jói var svangur heima var ákveðið að gera vel við sig og kaupa gómsætan kebab frá Kebabhúsinu. En nei nei nú strækaði bílinn aftur, og nú á miðju Lækjartorgi nánast þar sem ég hafði fengið stæði á "besta"stað. Argh og gargh og nú kom hann Jói minn og hin stóra sys mér til bjargar... eftir 40 mínutna bið með opið húdd og startkaplana tilbúna fyrir utan Pravda.

Ástæðan fyrir hversu lengi það tók hana koma mér til bjargar var þó nokkuð skemmtileg... litli kall hann Jón Stefán 2 ára gutti vildi endilega koma með þar sem hún Margrét stóra frænka var grátandi í bílnum niðri í bæ vegna ófara sinna og hann þyrfti nú að koma og hugga... eftir að það var búið að skipta á bossanum á honum.

Það skal þó tekið fram að ég var ekki grátandi þó að ég hafi verið gráti næst heldur datt honum þetta í hug sjálfum þegar hann sá að mamma sín var á leiðinni út úr dyrunum að redda litlu systir! Eftir þetta var gott að komast og hitta á vini og spila og hygge sig... og himmm bílinn skilinn eftir heima í Geitlandi... enn og aftur rafmagnslaus!

10.4.06

Kaupmannahöfn?

Vegna breytinga hjá Jóa mínum sem er kominn með frábæra draumavinnu hjá KB banka gæti farið svo að við verðum búsett í Kaupmannahöfn í um hálft ár haust 2007 eða jafnvel frá vori 2007... býsna langt þangað til en jamm spennandi að vera búsett þar í smá tíma þó að vísu myndi ég þurfa að pendla til Odense eða vonandi bara Slagelse í verknám. Jæja nóg af skipulag.is/margretlara hehe!

3.4.06

Komin heim

Þá er ég komin heim á klakann heilu að höldnu. Rosalega er það nú ljúft að vera komin heim þrátt fyrir rysjótt veður og þá staðreynd að bókalesturinn hangir enn yfir mér. Ég hef þó gert ýmislegt skemmtilegt þar á meðal þá bauð ég honum Jóa mínum í óvissuferð... eldaði fyrir hann sjávarréttarsúpu og bauð honum á sinfóníuna... ég er búin að knúsa fólkið mitt, hitta á allar vinkonurnar næstum því, kíkja í vísindaferð með Jóa, fór út að borða á Austur Indíafjelaginu með vinkonunum og kærustum og margt fleira... ég á þó eftir að fara í sund en það er nú ómissandi partur af því að vera hér heima við. Annars er bara málið að opna kort í Hreyfingu svo að maður hlaupi ekki endanlega í spik yfir páskahátíðina ;)