28.6.06

Langt langt í burtu

Suma daga er erfiðara að vera langt í burtu frá sínum nánustu en aðra og þá langar manni bara að hoppa upp í næstu vél og til að fá tækifæri á að faðma fólkið sitt. Þó verður maður stundum að láta sér nægja að senda góða strauma og hugsa hlýtt til þeirra sem maður þykir vænst um... hvað svo sem allar rannsóknir og vísindin segja um ágæti þess.

Alla vega hlakka ég endalaust til að koma heim á laugardaginn og hitta á alla fjölskylduna í persónu, miklu miklu betra en í gegnum símann, MSN eða skype. Það verður svo gott að knúsa alla fast að mér og kyssa ;)


Myndin hér að ofan er tekin frá bústaðnum uppi á Þingvöllum. Einn yndislegasti og friðsælasti staðurinn á jörðinni í mínum huga og án efa í huga mann dagsins í dag.

27.6.06

Uss uss uss!

Hér sit ég með maskara niður á kinn og eldrauð í framan. Ástæðan er sú að loksins í dag lét ég verða að því að hitta á nágrannakonu mína sem ég hef verið lengi á leiðinni til. Málið er að þegar Jói var hérna hjá mér í lok maí fram í júní þá eignaðist hann vinkonu sem býr hérna á sömu hæð og ég... eða öllu heldur Elva Dögg. Það var nátturulega ekkert nema gott mál, fínt fyrir hann að kynnast öðru fólki hérna og svona. En svo fór að líða að því að Jói var oft að nefna hana vinkonu sína Maríu á nafn og tók að venja komur sínar til hennar þegar ég var í skólanum eða upptekin við eitthvað annað! Jújú það var svo sem ágætt, María er fín sænsk stelpa, jákvæð og hress eins og sannur Svíi og kannski hundleiðinlegt fyrir Jóa að hanga og bíða eftir mér alla morgna. Hann kom líka ætíð sæll frá henni, afslappaður og brosandi. Mycket bra!

Í dag ég ákvað ég þó að tími væri til kominn að hitta á stelpuna sem Jói bar svo vel söguna af og komast af því hvað væri svona æðislegt við að heimsækja hana. Eftir að hafa staðið fram á gangi og bankað nett hóf ég að berja á dyr þar sem ég vissi að hún var heima en opnaði ekki fyrir mér. Loks fattaði ég þó að hehe hún bjó 2 íbúðum lengra, sem sagt það eru tvær sænskar Maríur á hæðinni. Æði. Bankaði svo hjá Maríu og jújú það var eins og ég bjóst við hún fann alla mínu aumustu punkta og nýddist á þeim óspart.

Því sit ég hér með maskara út á kinn og eldrauð í framan en samt svo sæl þar sem María hin sænska er snilldar nuddari sem tekur að sér að nudda mesta prófstressið úr fólki. Uss uss suss það ætti að vera skylda að komast í nudd öðru hvoru, svo endurnærandi.

24.6.06

Skt. Hansaften


Hásumar og ég enn í skólanum og prófum! Er að mygla hérna vægast sagt og því greip ég fengis hendi tækifæri um að komast á brennu með Gauta og Valdísi í gær á Skt. Hansaften þar sem nornin var brennd á bálinu. Það ætti að banna próf eftir Jónsmessu usss.

Annars langar mig að segja til hamingju til allra þeirra sem eru að útskrifast í dag og þá sérstaklega Margrétar Erlu sem er að útskrifast sem kennari í dag.

22.6.06

Þrjóska!


Þrjóska eða að vera fylgin sjálfum sér það er nú spurning út af fyrir sig. Undanfarna 3 mánuði hef ég átt í leiðindarstappi við Kollegieboligselskabet (KBS), samtökin sem ég leigði hjá þegar ég bjó á Pjentedamsgade. Málið var að í lok mars fékk ég rugl háan rafmagnsreikning um að ég ætti að borga þeim um 2200kr danskar eða um 26þús íslenskar umfram það sem ég hafði borgað fyrir fram yfir sautján mánaðatímabil. Eitthvað fannst mér þetta nú bogið í ljósi þess sem ég hef yfirleitt fengið vel mikið borgað tilbaka fyrir bæði rafmagn og hita og að ég hafði á þessu tímabili verið í allt í allt um 9 mánuði heima á Íslandi og íbúðin því staðið tóm. Eftir að við nokkur sem höfðum fengið svona gígantískt háan reikning fórum og kvörtuðum þá var okkur tjáð að þetta yrði nú endurútreiknað og við ættum því að bíða með að borga. Það var nú samt ekki svona einfalt þar sem KBS ætlaði að troða þessari summu inn í mánaðarleiguna næsta mánuð og endaði ég með að fá bankann til að hringja í þau þar sem þessu var breytt.

Svo leið og beið, ég fékk meðal annars rukkun fyrir að hafa ekki borgað þrátt fyrir að mér hafði verið tjáð að gera það ekki. Það var leiðrétt, en samt ekki því þegar ég flutti út þá fékk ég aftur þessa rukkun í hausinn og nýtt yfirlit þar sem ég átti "aðeins" að borga þeim um 1420kr danskar! Ég neitaði enn að trúa því og upp hófust á ný e mail skrif fram og til baka, kvartanir og vesen. Ég endaði að lokum með að fara upp eftir og lenti þar í stappi við tvo starfsmenn á svona opnu vinnusvæði þannig að allur vinnustaðurinn og viðskiptavinir sem biðu eftir afgreiðslu voru farnir að horfa á þennan þrjóska Íslending sem neitaði að gefa sig og reifst á hrogna dönsku.

Urrr hvað ég var reið eftir þetta þar sem ég fékk að vita að ég ætti nú að læra að spara fyrst ég væri að spreða um 550kr (7000kr íslenskum) á mánuði í rafmagn í 29fm íbúð, læra að taka allt úr sambandi því það væri ekki nóg að slökkva á innstungunni sem tekur eitthver W þrátt fyrir notkunarleysi á raftækjum og bara hætta að elda mér mat og nota eldavélina! Mælarnir lygu ekki. Því sendi ég að lokum meil þar sem ég bað um betri útskrift og kvittun fyrir aflestur og bjóst nú ekki við svari eftir allt þetta þref!

Í dag var svo hringt í mig og ég beðin afsökunar, ég átti víst alltaf að fá pening endurgreiddan og það hefði verið töluvíxl í aflestri. Mannleg mistök og því er niðurstaðan að þeir skulda mér yfir 1500kr!

Vá þar kom ég enn einu sinni með söguna af barráttu minni við KBS. Ég held nú að margir séu orðnir þreyttir á röflinu mínu um vitlausan rafmagnsreikning hehe ;) Annars er það að frétta að í gær fékk ég læknanúmerið mitt. Góð tala, flott og nokkuð táknræn en ég fer nú ekki að básuna henni hér opinberlega. Læknanúmerið fylgir því að ég er að fá tímabundið lækningarleyfi til að vinna í sumar, rosalega hljómar þetta stórt! Talan er hins vegar ekki tímabundin.

19.6.06

Til hamingju með daginn stelpur!


Ýmislegt tekur maður nú fyrir sjálfsagt nú til dags. Til dæmis finnst okkur sjálfsagt að sjá konur inn á þingi, sem forseta Alþingis og forseta lýðveldisins Ísland. En föðurömmu minni sem er fædd stuttu eftir aldarmót 1900 var ekki tryggður kosningarréttur fyrr en hún var orðin vel stálpaður unglingur, hún hefur síðan án efa nýtt sér þau réttindi þegar hún hafði aldur til enda komin af pólitísku heimili. Síðar var amma Hring, eins og ég kallaði hana, fyrsta konan á Íslandi til að gegna stöðu bankafulltrúa og þótti það merkilegt þegar þær konur sem voru útivinnu voru yfirleitt í fiski eða gengdu öðrum láglauna störfum. Í dag telst það nú varla frásagnarvert ef að kona kemst í ábyrgaðarstöðu enda er það ekkert nema eðlilegt ef viðkomandi einstaklingur telst hæfur. Margt hefur breyst á síðastliðnum 91 árum á Íslandi og margt má enn þann dag í dag breytast fyrir komandi kynslóðir.

17.6.06

Til hamingju Ísland!


Sautjándinn í ár er einn af fjölmörgum sem ég er ekki heima á Íslandi fagnandi með blöðru niðri í bæ og drekkandi heitt kakó með rjóma ásamt gómsætum pönnukökum heima í Geitlandinu. Ohhh hvað ég hlakka til að geta notið dagsins eitthvern tímann í framtíðinni heima í rigningunni undir regnhlífinni, ef hún helst heil fyrir roki, með bros á vör.

Í fyrra var ég þó heima á Fróni í rjómablíðunni sem einkenndi daginn. Dagurinn var það frábær að ég get vel lifað á minningunni núna þegar ég sit sveitt yfir því að lesa um hin ýmsu lyf gegn meltingarfærasjúkdómum. Dagurinn í fyrra var deginn snemma og við Jói fórum á samkomu hjá Búddasamtöknum hans Jóa, SGI á Íslandi. Eftir kyrjun, ræður og meiri kyrjun var setið saman og spjallað yfir dýrindis kökuborði. Síðan röltum við saman niður í bæ svona rétt til að kíkja á stemninguna. Brunuðum að því búnu austur á Selfoss í pönnsur hjá mömmu og pabba á Fossheiðinni. Síðan var haldið í sveitasæluna á Flúðum þar sem góð vinkona Jóa... og mín... hún Heiða María var að halda upp á að vera komin með B.A. í sálfræði og um leið upp á afmælið sitt. Þar vorum við í góðu yfirlæti yfir alla helgina í rjómablíðu. Heitur pottur, ratleikur, bjartar nætur, spilerí, góður matur og annað afslappelsi einkenndi því sautjánda júní helgina í fyrra. Verkun hægðarlosandi lyfja, stoppandi lyfja og fleirri skemmtilegheit einkenna sautjándann í dag! Þó er skýjað úti hérna í Baunalandi, smá sautjándafílingur er því í manni og hver veit nema ég skelli mér í fællesspisning með fótboltanum í aften eða horfi á þjóðhátíðarleikinn Ísland-Svíþjóð! Áfram Ísland!

Heiða María situr við enda borðsins með sólgleraugu.


Að lokum segi ég Áfram Jói þar sem kappinn er að taka á móti Omamori sem er svokallað ferðagohonzon nánast í þessum rituðum orðum á hátíðarsamkomunni hjá SGI. Fyrir þá sem eru að velta fyrir sér hva' i verden er det þá skal ég reyna að koma með smá leikmannaskýringu á hugtakinu gohonzon. Go vísar til virðingar og honzon þýðir hlutur djúpstæðrar virðingar og tilbeðslu. Í þessu tilfelli er gohonzon þýðingarmikið skjal sem á er ritað grundvallar kennisetning búddismastefnu læriföðursins Nicheren. Gohonzon á sinn stað í altarisskáp þess sem stundar búddisman og kyrjar fyrir framan gonhonzon. Omamori er lítið ferðagohonzon með sambærilegu skjali inn í.

Lokaniðurstaða: Örsmátt "altari" fyrir Jóa til að kyrja við á öllu flakkinu okkar!



Stelpa með voða sætt lítið Omamori.

5.6.06

Með söknuð í hjartanu!

Æi ohh það er nú tómlegt að koma aftur upp í íbúð eftir að hafa horft á eftir ástinni sinni bruna með lestinni áleiðis til Kastrup, Lufthavn. Eins gott að þetta var ein af síðustu svona kveðjustundunum, þessi mikli flakk vetur liðinn og framundan tími þar sem við verðum nánast ekkert lengur í sundur. Nú er 4 vikna frábært tímabil liðið og við tekur hversdagsleiki stúdentínu í Odense. Fríið búið, mamma og pabbi löngu farin, Spánarferðin minning ein og Jói haldinn af stað áleiðis til Íslands til að byrja að vinna. Nú eru liðnar 2 vikur af 6 af erfiðum og þungum kúrs og ég verð nú að játa að meðan Jói hefur verið hérna hefur verið þrautinni þyngra að halda sig almennilega við lesturinn... svo freistandi að knúsast bara í honum! Svo nú er bara að bretta upp ermarnar og hella sér í lesturinn, hunsa góða veðrið sem er að hellast aftur yfir Mörkina. Merkilegt hvað ég er bit yfir því að undanfarnar 2 vikur hafa verið mikill rigningartími og ekki sú mikla sól og hiti sem ég var búin að lofa Jóa! Getur maður tekið veðurspánna svona persónulega?

Jæja best að drífa sig í lesturinn og ilma af rósabúntinu sem Jói var svo sætur að gefa mér fyrir helgi ;)