30.11.02

Ég vaknaði alveg þrælkvefuð í gærmorgun og ætlaði varla að nenna að leggja það á mig að fara í skólann. Ég ákvað svo að splæsa á mig strætóferð enda góður fyrirlestur sem ég myndi annars missa af. Rosalega er maður lengi með strætó eða um klukkutíma, það borgar því sig svo sannarlega að hjóla! Stoppaði í apóteki til að kaupa svona Panodil Hot te þar sem mér leið svo illa af þessu kvefi. Þegar ég var að hita það komst ég að því að leiðbeiningarnar á pakkanum voru á íslensku- sniðugt! Í gærkvöldið pöntuðum við Unnur, Danni og Beta, sem er í helgarheimsókn hérna en hún er í Lýðskólanum í Vejen, pizzur. Ohh, hvað pizzurnar eru nú góðar hérna, held ég muni jafnvel sakna þeirra heima á Íslandi. Sátum svo fyrir framan imbann og spjölluðum, voða kosý. Núna er laugardagur sem þýðir að Margrét Lára ætlar að taka til í íbúðinni, úff. Ætli ég kalli þetta ekki bara jólahreingerninguna og þá verður rosa gaman ;) Svo er meiningin að kíkja í bækurnar og jafnvel til Lise sem bauðst til að kíkja yfir verkefnið mitt um fylgivaktirnar. Reyni svo að kaupa jólaaðventuljós í gluggann minn. Í kvöld er svo julefrukost númer tvo en núna er það ekki hjá Félagi danskra læknanema heldur hjá Félagi íslenskra læknanema í Óðinsvéum. Eins gott að ég er orðin betri af kvefinu, enda rosalega dugleg að taka Prologic. Jæja, en núna er best að fara að drífa sig í að þrífa.

28.11.02

Að vera á ferðinni á morgnanna í myrkri minnir mann bara á að vera heima á Íslandi. Núna tvo síðustu daga hef ég þurft að vakna um klukkan sex og verið að hjóla upp á spítala í myrkrinu sem er farið þegar ég er venjulega á ferðinni um áttaleytið! Það var miklu meira að gera hjá mér í dag á fylgivaktinni þar sem sú sem ég fylgdi í gær var á námskeiði og núna var ég á flakki á milli nánast allra hjúkrunarfræðinganna á deildinni. Það var því séð fyrir að ég gerði sem mest og alltaf eitthvað sem eitthver fann upp á að láta mig prufa. Var send með sjúkling í bað, fór að mæla blóðþrýsting, hita og púls... eins gott að sjúklingarnir voru voða þolinmóður. Fór svo til Nínu og við fengum okkur rosagóðan kebab hjá eitthverjum kebabkarli sem vildi endilega segja okkur að hann átti einu sinni íslenska kærustu. Í gærkvöldið fór ég í göngutúr með Unni en svona kvöldgöngutúrar eru eitt af því sem ég hef saknað að heiman og því er frábært að hafa vinkonu sína hérna til að fara út að labba með;)

Mamma, það var sko gaman að heyra í þér núna áðan og ég skal sko passa mig að láta mér batna af kvefinu!

27.11.02

Ákvað að skrifa smá inn núna þar sem ég er á annað borð í tölvunni. Er að fara byrja að vinna aðeins í skýrslunni sem ég á að skila eftir fylgivaktirnar mínar, spennandi að vita hvernig það gengur að skrifa á dönskunni;) Það var nú bara fínt hjá mér í dag á vaktinni þó það er nú ansi skrítið að vera alveg á hælunum á eftir einni manneskju í átta tíma! Ég var samt rosa heppin með hjúkrunarfræðing til að elta, hún var voða þolinmóð. Reyndar var það nú hálf ansarlegt að vera alltaf kynntur fyrir sjúklingunum sem Margrét læknanemi þar sem maður kann svo lítið og er svo nýr í þessu. Mér tókst að mæta alveg á réttum tíma þó að ég var í fyrstu svolítið villt á þessu RISA sjúkrahússvæði svona ein klukkan hálfsjö að morgni. En mín var komin í hjúkkukjólinn á undan hjúkrunarfræðinginum sem ég fylgdi. Skrítið að hjúkrunarfræðingar séu ennþá í kjólum hérna, en samt sem betur fer bara þeir kvenkyns! Það má samt núorðið vera í venjulegum buxum innan undir kjólnum- þó það nú. Ég var á endokrin deild eða þar sem flestir voru sykursjúkir, með skjaldkirtilshormónabrenglun og nokkrir langt leiddir anorexíusjúklingar sem voru með brengluð efnaskiptaferli. Jæja, það er nú greinilegt að ég þarf að fara að skrifa þessa skýrslu enda eiga þessar upplýsingar nú betur heima þar;)

Fór annars smá erindi í bæinn í dag og rosalega er allt ójólalegt þar, miðað við allar jólaaulýsingarnar sem maður er að alltaf að heyra og sjá!

26.11.02

Þá er það færsla tvo! Þetta gekk nú alveg ágætlega hjá mér í gær og greinilega núna líka. Ætli ég hafi ekki verið að ná mér í eitthvað danskt kvef og vesen. Því ætlaði ég varla að nenna að hjóla þessa tæpu 8km í skólann í morgun bara fyrir einn tíma en samviskusemin yfirbugaði mig. Fyndið að þurfa að hjóla lengur en maður er í skólanum- reyndar fram og til baka. Ég þurfti auk þess að koma ýmsum svona pappírsmálum í lag og fór því að hitta námsfulltrúa læknanema. Rosalega er það þægilegt að hafa eitthvern sér innan handar í þessum málum. Fór síðan með studiegrúppunni minni í heimsókn til supertutorsins okkar uppi á spítala en hún er læknir á genadeildinni. Fengum að fræðast um starfið hennar, sem hljómaði spennandi og nýtt.

Sjálf er ég nú á leið á mína fyrstu vakt á sama sjúkrahúsi á morgun! Á morgun og á fimmtudaginn tek ég fylgivaktir sem tilheyra sygeplejevigarnámskeiðinu mínu. Fyrir þá sem ekki vita er það námskeið fyrir læknanema til að veita þeim réttindi til að taka vaktir sem sjúkraliðar í fyrstu og síðar sem ventilatorar á gjörgæsludeild. Vaktirnar felast í því að sitja hjá einum sjúklingi sem þarf nokkuð nána aðhlynningu vegna til dæmis þunglyndis, geðraskana eða vegna þess að hann vill reyna að stinga af. Einnig getur maður lent á vakt hjá deyjandi sjúkling, en það var víst algengara áður fyrr- því er ég fegin. Maður kynnist því lífinu inni á spítala frá grunni sem sygeplejevigar, en auk þess er starfið ágætlega borgað fyrir fátækan námsmann;) Vaktin byrjar klukkan sjö á morgun þannig það er eins gott að fara snemma að sofa!

25.11.02

Smá tímamót, fyrsta skiptið sem ég "blogga"! Það virðast allir vera að fá sér svona síðu- alla vega flestir í útlandinu. Ég vil því reyna að vera sniðug og koma mér upp svona einkafréttavef líka. Síðan verður bara að koma í ljós hversu dugleg ég verð að segja frá viðburðum stúdentalífsins í Danmörku og hinna ljúfu daga á Íslandi. Ég er nú alla vega dugleg að kíkja á netið eftir langa skóladaga sem og stutta. Það er einnig undir ykkur komið, kæru vinir og ættingjar, að kíkja inn og heyra hvað ég er að bralla ;) Svo er bara að vona að mér takist að koma þessu áfram núna, en þetta hefur verið ískyggilega létt að setja upp. Annars, ef það gengur ekki þá hafið þið varla getað lesið þetta. Flókið að blanda svona nútíð og þátíð saman í einni setningu!