Kominn tími á nýtt blogg?
Úfff tíminn líður hratt þessa dagana. Spánarferðin var hreint út sagt frábær! Allt gekk upp og Jói kom á réttum tíma frá Íslandi svo við náðum fluginu til Spánar glæsilega... hehe ég sem hafði nú haft svolitlar óþarfa
áhyggjur á að þetta myndi fara öðru vísi. Á Spáni slöppuðum við bara af, vorum með fínasta hús í útjarði Torrevieja með allri aðstöðu og þráðlausu neti í þokkabót, meira hvað maður er háður netinu ;) Dagarnir fóru í það að kíkja niður á strönd, í laugarnar við húsið, liggja út á sólpalli, elda góðan mat því svona sólarstrandarkráarmatar er ekki alltaf að gera sig hvað varðar næringargildi og bragð, fórum í vatnagarðinn og í allar mest skerí rennibrautirnar, kíktum á Benidorm og líka á áhugaverða staði í nágrenninu. Ég verð nú að segja að Benidorm kom mér á óvart, ekki eins sjoppulegur staður og ég bjóst við þó það sé spes fílingur að vera þarna umkringdur sjöunda áratugs háhýsum. Ströndin leit betur
út en tja við vorum nú líka á ferð um miðjan maí en ekki í lok ágúst á háannatíma þegar allt er orðið vel útsjúskað. Við fundum fyrir því í vatnagarðinum hvað þessi tími á vorin er snilldartími til að ferðast, höfðum allan garðinn út af fyrir okkur þrátt fyrir að það hafi nú verið svolítið á fólki á sama tíma. Þetta þýddi ENGAR biðraðir og því var skrokkurinn orðinn vel marinn og gegnsósa eftir allan hamaganginn.
Seinasta sunnudagskvöld komum við svo "heim" til Danmerkur, ég og Jói. Við vorum svo einstaklega óheppin að rétt missa af lestinni til Odense og þurftum því að dúsa í kringum rónana og betlarana á Hovedbane í Köben í liðlega 2 tíma! Við komust svo heil á höldnu heim í "sveitina" og það var nú ljúft að fara að sofa upp á svefnloftinu góða í íbúðinni hennar Elvu þá :D EN síðan við komum til baka þá er ekki lengur 25-30 stiga hiti og sól heldur riging, rok og stundum haglél og bara 12-14°gráður... brrr... en sumarið er sko ekki búið :D
The Rain in Spain...
... stays mainly in the plane... Hvað svo sem það þýðir! En ó já það er sko 25-30 stiga hiti og sól hjá mér næstu dagana og stanslaust stuð ;) Undanfarnir dagar hafa nú verið afar ljúfir hérna í Baunalandi. Mamma og pabbi komu síðastliðinn miðvikudag til mín og síðan þá hefur verið eins konar upphitun í gangi fyrir Spánarferðina. Hér hefur verið um 20-25 stiga og við höfum gert ýmislegt skemmtilegt eins og að fá okkur ítalskan ís í sólskininu, skroppið í bæinn, farið út að borða á tapasstað og Hereford steikarhúsinu, fengið okkur gammeldaws ís með flödeskum, skoðað hallir og hallargarða, farið á söfn, kíkt á kaffihús, bátarsiglingu og þar frameftir götunum. Núna er hins vegar farið að kólna smá hérna... sem er þó lagi þar sem í fyrramálið verður stefnan tekin á Kaupmannahöfn til að kjósa og spóka sig smá um. Klukkan þrjú eigum við svo flug til Alicante og hittum við hann Jóa út á flugvelli um hálfeitt eitt... eins gott að fluginu hans seinki ekki :S
Lífið er yndislegt!
Númer eitt er að óska honum Jóa mínum til hamingju með daginn... orðinn 24 ára gamall og næstum að ná mér í aldri ha hehehe ;) Ég fann líka þessu fínu gjöf handa honum, dúnsæng svo ég fái að hafa mína í friði og svo ætla ég að gefa honum 60% í fargjaldinu hans til Spánar. Ég held að hann sé nokkuð sáttur bara ;)
Annars er svo sannarlega ljúft hér í Mörkinni þessa dagana... ég er komin í 2 vikna frí eftir próf seinasta föstudag í húðsjúkdómum. Prófið var haldið upp í háskóla og já þetta er í annað sinn á þessari önn sem ég hjóla alla þessa leið upp í skóla! Hehe málið er að við sem erum í læknisfræði erum í flestum okkar tímum á sjúkrahúsasvæðinu og förum því sára sára sjaldan upp í hinn eiginlega háskóla sem er alveg á bæjarmörkunum! Annars gekk prófið ljómandi vel og það var því ljúft að hjóla niður í bæ aftur og kíkja smá í búðir og fjárfesta í nauðsynum fyrir Spánarferðina eins og sólgleraugum, sandölum og töff bikníi. Ekki skemmdi heldur fyrir að hitinn er kominn upp í 22 gráður hér og sól þannig að ég er farin að taka smá lit og verð því ekki sannkölluð næpa þarna suður frá. Mamma og pabbi eru svo á leiðinni hingað út til mín á miðvikudaginn. Já lífið er yndislegt þessa dagana þó að mig vanti nú sárlega að knúsa hann Jóa minn og allt væri fullkomið ef hann væri hér hjá mér í blíðunni... en nú eru bara 6 dagar þar til kappinn kemur.