23.12.02

Í kvöld voru litlu jólin haldin. Við vinkonurnar í NNN, Níu Nöskum Nöflum, hittumst allar nema Þórey, sem er ábyggilega á leiðinni eða jafnvel komin út til New York, heima hjá mér. Við fengum okkur kakó með rjóma, kökur, smákökur og svo auðvitað heita aspasréttinn! Smá upphitun fyrir jólakræsingarnar. Það var sko sannarlega gaman að hittast allar svona í rólegheitunum og spjalla. Hlógum nú mikið af vitleysunni í okkur í gærkveldi í partýinu hjá Sif... fórum svo í skemmtilegan pakkaleik og ákváðum að búa til hefð fyrir svona jólaNNNboði. Í gærkvöldið fór ég líka í afmælið hjá Siggu Maju sem var svaka stuð. Úff, en núna verð ég að fara að drífa mig í háttinn þar sem Þorláksmessa er á morgun og við Hugrún María ætlum að bralla eitthvað sniðugt saman.

20.12.02

Jólafríið á Íslandi er sko hafið! Ohh, hvað það er nú yndislegt að vera komin heim og hitta alla sem er svo gaman að knúsa. Sérstaklega hefur nú verið gaman að hitta öll systkinabörnin sem hafa stækkað, þó mismikið ;) Ég verð nú að segja að ég þekki nú alla í sjón og allir virðast líka muna eftir mér, enda ekkert svo hrikalega langt síðan ég sá mannskapinn. Eitt er þó nokkuð skrítið, núna hefur maður ekkert til að hlakka rosalega til þar sem maður er kominn til Íslands! Ætli ég láti mér því ekki bara hlakka til jólanna staðinn...;) Síðan er líka alltaf unnt að kíkja í bækur til að halda sér niðri á jörðinni, hinni íslensku snjólausu grund...

12.12.02

Himm, hvada jólasveinn ætli komi nú í bæinn annað kvöld... Í morgun vaknaði ég nánast á undan vekjaraklukkunni, en það gerist nú sjaldan! Hver ætli ástæðan hafi svo verið? Jú, ég vaknaði með fiðring í magnum þar sem núna er ég að fara niðri í koffortgeymsluna í dimma kjallaranum að sækja grænu töskuna mína til að láta ýmislegt sniðugt í hana! Verð að vera dugleg að pakka núna í morgunsárið fyrir skólann þar sem mér er boðið í mat í kvöld eftir skóla til hennar Sine, sem stjórnaði studiegrúppunni. Síðan er það bara heimferð á morgun...

9.12.02

Nú er ég sko kát! Ástæðan er sú að ég var fyrir um það bil klukkutíma síðan að ná mínu fyrsta munnlega prófi, sem fór fram á dönsku. Ég var sem sagt að taka FADL prófið sem fór þannig fram að ég fékk fjögur mismunandi tilfelli í fjórum sjúkrarúmum og átti að vera við hvert í korter. Í einu var ungur sjúklingur, sem var nýkominn úr lærbeinsneglingu og var svolítið ruglaður eftir svæfinguna. Hann þurfti sem sagt fara á bækken=hægðarskál og ég þurfti að hjálpa honum. Síðan tók við rúm þar sem farið var í gegnum öll grunnatriðin eða blóðþrýsting, hita, púls og samdrátt sjáaldra við lýsingu í augun. Þar þurfti auðvitað dómarinn að byrja að tilkynna mér að ég yrði að nú að tala það góða dönsku að hann gæti skilið mig þannig að ég fór alveg í baklás! Spurði mig svo spjörunum úr og ég byrjaði sko að svitna. Síðan tók við rúm með geðklofaeinstakling sem hafði meitt sig á höfði og fæti. Það var sko erfitt að róa þann mann og skilja hvort hann væri bara að bulla í mér eða að tala dönsku... Hann endaði á því að skríða inn í sængurverið og rugla...úfff. Að lokum tóku við bóklegar spurningar sem ég mér gekk best í. Síðan vorum við dæmd og okkur tilkynnt hvort við höfðum náð eða ekki og hvað mætti hafa betur farið. Ég fékk góða dóma og var alveg rosalega ánægð, sérstaklega þar sem strákurinn sem sagði að ég yrði að tala góða dönsku tilkynnti mér að ég hafði náð;) Þau geta verið ansi hörð á þessu prófi og þá sérstaklega við útlendinga. Núna er það svo bara alvaran á komandi vöktum... en þær eru þó ekki fyrr en eftir jól!

Ansi var það samt skrítið að koma heim og þurfa að leita að eitthverjum til að samgleðjast sér! Nína er í jólahárklippingunni núna þannig að ekki var unnt að tala við hana. Unnur er í Köben skemmta sér og kveðja Jórunni, systur sína, sem er að fara að fljúga heim. Anna, herbergisfélaginn minn, var ennþá í skólanum þegar ég kom heim. Auðvitað hringdi ég því heim og heyrði í mömmu, pabba, Elínu Láru, Maju og Hugrúnu Maríu, það var frábært! Síðan fengu ábyggilega eitthverjir SMS frá mér...

Á laugardaginn leit ég í bæinn eftir að hafa farið í jólaklippinguna hjá íslenskri stelpu sem er hárgreiðslumeistari og nýkomin hingað. Mæli með henni! Nú er jólastemmningin sannarlega komin í Óðinsvé og fórum við Nína á kaffihús við skautasvellið okkar hérna í Óðinsvéum. Síðan var litið í nokkrar búðir. Í gær fékk ég svo að smakka jólasmákökur hjá Unni og Danna sem þau höfðu bakað með hjálp Jórunnar. NAMMINAMM

6.12.02

Það var sko sannarlega jólalegt í Köben. Vaknaði á miðvikudagsmorguninn nokkuð hress og var svo staðráðin í að fara til Kaupmannahafnar að ég hlustaði ekki á röflið í maganum. Það kom svo í ljós að það var alveg rétt hjá mér, eina vesenið sem ég hafði með magann var það að ég og Nína vorum full ákáfar í að háma okkur pizzur og þamba gos á eat-and-drink-as-much-as-you-can hlaðborði á Pizzahut! Ekki sniðugt þegar maður hefur ekki borðað neitt í tvo daga... Allt var rosalega vel skreytt og risa skautasvell á torginu við Nyhavn. Ég og Nína byrjuðum samt á því að hjálpa gömlum manni sem missti jafnvægið í rúllustiganum á Hovedbånegarden. Hann datt aftur á bak og við þurftum að beita öllum okkar kröftum til að grípa hann og hjálpa honum í að ná jafnvægi. Skrítið, enginn gerði neitt nema að argast í hvað væri að gerast þar til ég fór að kalla; HJÆLP!! Við náðum ekki að fara í Tívolíið vegna þess að við fórum á kaffihús, bæði Café Norden og eitthvað annað í Nyhavn;) Þetta var rosa vel heppnuð ferð og mér leið eins og ég hafði farið í frí til útlanda þegar ég kom til baka!

Eitt áttaði ég mig ennþá betur á í sambandi við jólin þegar ég og Nína röltum upp og niður Strikið. Það getur verið alveg óhugnanlega erfitt að finna góðar jólagjafir enda var það alltaf þannig að þegar við heyrðum í eitthverjum Íslendingum þá voru þeir að rökræða hvað hinn og þessi vildi ábyggilega fá í gjöf! Því hef ég ákveðið að koma með smá lista af hlutum sem mér langar í... bara nokkrar hugmyndir.

MIG VANTAR
Regnföt- til að hjóla í rigningunni hérna enda orðin þreytt á því að mæta rennandi blaut í skólann...
Vetrarúlpu- dúnúlpan mín er svo skítsæl enda er hún hvít á litin. Svo þarf ég svolítið liprari flík!
Skó, íþrótta eða hversdags- það kom gat á skóna mína...

MIG LANGAR Í

Táknmálsmyndaorðabókina
Body Shop kinnalit nr. 05, Tea Rose
Eye Shimmer 06, Violet eða Eye Shimmer 07, Indigo augnskugga frá Body Shop
Body Shop varalitablýant nr. 06, Mahogany
Góðan svartan maskara
Aromatic Beauty Body Spray frá Darphin
Góða íþróttasokka í leikfimina
Leikfimisföt
Flottar flíkur

P.S. Það var smá snjóföl yfir Óðinsvéum í morgun, ef til vill jólasnjórinn...

3.12.02

Úff, eftir að vera búin að vera sæmilega hress af þessu leiðindar kvefi í einn dag þá tekur Gullfoss og Geysir við. Fékk meira að segja hita og beinverki og var ógeðslega slöpp í gærkvöldi og í nótt. Ég ætla bara að vona að ég sé að taka þetta allt út áður en ég kem heim ;) Annars náði ég að sofa lengi frameftir og vonandi svaf ég þetta úr mér. Ég fór því ekki í skólann í morgun, en varð þó hreinlega að fara með studiegrúppunni minni áðan í Klínikbygginguna uppi á sjúkrahúsi. Við fórum nefnilega í Færdighedslabratoriuna þar sem okkur var kennt að setja upp veneflon og að sauma. Síðan máttum við æfa okkur á dúkkum sem höfðu "blóð" í æðunum og svo máttum við endilega prufa á hvoru öðru, en reyndar ekki að skera sár og sauma það heldur setja upp nál. Ég treysti mér þó ekki að fara út að borða með krökkunum og hélt þess í stað heim á leið til að læra. Reyndar var ég að uppgötva að ER er í sjónvarpinu núna og ég verð nú barasta að leyfa mér að horfa á þann þátt ;) Vegna veikinda minna vorum við Nína búnar að fresta Kaupmannahafnarferðinni sem við vorum búnar að plana að fara á morgun. Ég var síðan að uppgötva að það er síðasti dagurinn sem við getum hugsanlega farið þar sem það er svo stutt þar til við förum heim. Ég ætla því að sjá til hvort ég treysti mér ekki til höfuðborgarinnar á morgun að skoða jólaljósin...

1.12.02

FULLVELDISDAGURINN OG 1. Í AÐVENTU
Ahh, var að koma inn úr rosa frískandi göngutúr með Unni. Gengum út um allt hérna í Bolbro- hverfinu okkar sem er ansi ólíkt gamla, góða Fossvoginum. Jólahreingerningin fór ekki fram fyrr en í dag eftir að ég vaknaði rosalega vel úthvíld í morgun, ohh hvað það er gott að sofa frameftir stundum. Mig langaði svo að skreyta meira þegar ég var búin að taka svona vel til og meira að segja líka búin að láta blómin mín í smá sturtu. Er reyndar búin að láta smá gulllitaða englasnúru í gluggakistuna mína sem og lítinn, sætan snjókarl í jólasveinadulbúning. Síðan má ekki gleyma súkkulaðijóladagatalinu mínu sem Anna, herbergisfélaginn minn, gaf mér en það er hérna við hliðina á mér við skrifborðið, NAMMINAMM. Leitinni að aðventuljósi í gluggann er hins vega ekki lokið og verður haldið áfram á morgun. Það var samt hálf fúlt að geta ekki kveikt á því í dag en það verður að vanda valið á svona ljósi og það sem fæst í Födex er ekki alveg eins og ég vil hafa það. Sakna þess að vera ekki heima í dag og kveikja á fyrsta kertinu á aðventukransinum en ég verð komin til að kveikja á því þriðja í staðinn.

Það var svo rosalega jólalegt á julefrukostinum í gær með hinum íslensku læknanemunum að ég get ekki beðið lengur eftir jólunum. Komst í alveg rosalegt jólaskap í gær þar sem við mættum öll í jólafötunum og sátum og borðuðum jólamat, sungum, fórum í pakkaleik og hlustuðum á jólalög. Það borgaði sig svo sannarlega að fara þar sem núna er ég komin í þetta fína jólaskap. Núna hlakka ég líka enn meira til miðvikudagsins þegar ég og Nína ætlum til Kaupmannahafnar að skoða jólaljósin í Tívólíinu og líka smá í búðir að versla jólagjafir ;) En skildu Danir vita hvaða dagur er í dag? Það hefur nú enginn óskað mér til hamingju með Fullveldisdaginn ennþá en ég er nú reyndar ekki búin að hitta neina Dani í dag! Sé hvað Lise gerir í kvöld þegar ég lít til hennar með verkefnið mitt.